Starfsemi
Hlutverk FKA
FKA er öflugt tengslanet kvenna úr öllum greinum atvinnulífsins. FKA er leiðandi hreyfiafl sem eflir fjölbreytileika atvinnulífsins. FKA styður kvenleiðtoga í að sækja fram og sameinar þær til aukins sýnileika og þátttöku.
,,Íslenskt atvinnulíf einkennist af fjölbreytileika og jöfnum tækifærum, komandi kynslóðum til fyrirmyndar,“ er framtíðarsýn FKA.
Tilgangur FKA
FKA er félag fyrir konur sem eru stjórnendur og leiðtogar í íslensku atvinnulífi og vinnur með aðilum á vinnumarkaði, fyrirtækjum, félagasamtökum og hinu opinbera að því að jafna tækifæri fyrir konur í stjórnum eða stjórnunarstöðum í atvinnulífinu. Félagið stendur fyrir viðburðum, fræðslu, veitir ráðgjöf og knýr fram breytingar á lögum og venjum til að gæta jafnvægis og fjölbreytileika innan atvinnulífsins.
Mikilvæg er fyrir samfélagið að fá tækifæri til að njóta sérfræðiþekkingar og reynslu kvenna.
Mikilvægt er að tryggja fjölbreytni við ákvarðanatökuborðin.
Gildi FKA
Framsækni - vísar í kraftinn sem býr í FKA konum og tækifæri þeirra til að hafa áhrif.
Valdefling - vísar í þá þekkingu og reynslu sem FKA miðlar til félagskvenna og mikilvægi fjölbreytileika í atvinnulífinu.
Samvinna - vísar í hvatningu og tengsl sem fæst með virkri þátttöku. Saman erum við sterkari og erum leiðandi hreyfiafl í íslensku atvinnulífi.
Starfsemi FKA
Stór hluti starfsemi FKA fer fram innan deilda og nefnda, sem sjá til þess að félagið haldi úti öflugu starfi á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðunum. FKA stendur fyrir fjölbreyttum viðburðum, fyrirtækjaheimsóknum, fræðslu og námskeiðum sem oftast eru innifalin í félagsgjaldi. Deildir og nefndir félagsins gegna lykilhlutverki í að þróa og framkvæma þessi verkefni, sem öll miða að því að efla þátttöku og auka sýnileika kvenna í atvinnulífinu.
Með starfsemi FKA er stuðlað að framþróun í atvinnulífinu m.a. með hreyfiaflsverkefnum sem ætlað er að knýja fram breytinga í atvinnulífinu til að jafna stöðu kynjanna og hafa áhrif á samfélagsumræðuna.
Deildirnar sinna mismunandi þörfum félagskvenna, allt frá þeim sem eiga og reka fyrirtæki til þeirra sem eru í stjórnunarstöðum eða vilja endurskapa sig, vaxa og/eða ná lengra í atvinnulífinu. Nefndir félagsins gegna lykilhlutverki í að skipuleggja viðburði og er frábær leið fyrir konur til að taka virkan þátt, efla sig, hafa áhrif og kjörið tækifæri til að styrkja sitt tengslanet.


FKA eru félagasamtök fyrir konur sem eru stjórnendur og leiðtogar í íslensku atvinnulífi. Hvort sem þú ert stjórnandi, leiðtogi, átt eða rekur þitt fyrirtæki – þá áttu heima í FKA ef þú vilt efla þig, styrkja og stuðla að því að efla íslenskt atvinnulíf.
FKA
- Hlutverk FKA
- Tilgangur FKA
- Gildi FKA
- Starfsemi FKA