Atvinnurekanda AUÐUR
Fyrir konur sem eiga og reka fyrirtæki eða hyggja á sjálfstæðan rekstur
Atvinnurekenda AUÐUR er félag innan FKA sem er sérstaklega ætluð konum sem eiga og reka fyrirtæki. Félagið skapar vettvang þar sem konur í atvinnurekstri geta vaxið, eflt tengslanet sitt og fengið stuðning við að takast á við áskoranir sem mæta þeim sem fyrirtækjaeigendum. Markmið Atvinnurekenda AUÐS er að standa vörð um hagsmuni félagskvenna, veita sérhæfðan stuðning og bjóða upp á fræðslufundi sem miða að þörfum og áhugasviði þeirra. Félagskonur í Atvinnurekenda AUÐI eru jafnframt aðilar að FKA.
Starfsemi félagsins
Ástæður, forsendur, tilgangur og markmið
Ástæðurnar fyrir stofnun og starfsemi Atvinnurekenda AUÐS (áður Atvinnurekendadeild FKA) voru í raun þær sömu og fyrir stofnun FKA árið 1999 – þá sem félagi kvenna í atvinnurekstri eingöngu.
Konur voru þá einungis um fimmtungur atvinnurekenda og hafði því miður á árinu 2016 - þegar A-AUÐUR fékk Félagsvísindastofnun til að framkvæma sams konar könnun og gerð var 1998 - ekki fjölgað nema að litlu leyti.
Konur sem ráku atvinnufyrirtæki um síðustu aldamót töldu margar að til að fjölga atvinnufyrirtækjum kvenna og styrkja stoðir þeirra, væri m.a. ávinningur af því að styðja við stofnun sérstaks félags og tengslanets. Á þeim vettvangi yrði sérstaklega horft til þeirra áskorana, sem kvenatvinnu- rekendur stæðu frammi fyrir – umfram kvenlaunþega. Þær sögðust margar vera í allra handa kvenfélögum og klúbbum, en jafnan vera eina konan sem ræki fyrirtæki og starfaði fyrir eigin reikning.
Meginforsenda stofnunar A-AUÐS var sú sama og fyrir stofnun FKA; að starfskraftar kvenna væru auðlind og stuðningur við atvinnurekstur þeirra þjónaði hagsmunum atvinnu- og efnahagslífsins. – Auk þess mætti ætla vegna fæðar fyrirtækja kvenna að meðal þeirra væri frekar óplægður akur með menntun, vilja, getu og hæfileika til atvinnureksturs og nýsköpunar en meðal karla.
Tilgangurinn með A-AUÐI er því að skapa og tryggja starfsemi sérstaks vettvangs og tengslanets fyrir kvenatvinnurekendur, enda áskoranir kvenna sem starfa fyrir eigin reikning að mjög mörgu leyti annars eðlis en mæta launþegum.
Markmið félagsins er í þeim sama anda; að standa vörð um hagsmuni félagskvenna sem atvinnurekenda, miðla upplýsingum og standa fyrir fræðslufundum, sem taka mið af þörfum þeirra og áhugasviði og efla og styðja við tengslanet félagskvenna innan sem utan félagsins.
- Fundir / þar sem félagskonur kynna sig og fyrirtæki sinnum
- Fræðslufundir og námskeið / með aðkomu ýmissa sérfræðinga
- Vorferð innanlands
- Aðalfundur / í maí ár hvert




Stærri og minni hópar félagskvenna hafa einnig á liðnum árum tekið þátt í Global Summit of Women ráðstefnunni, síðast í Madrid í maímánuði 2024.
A-AUÐUR er auk þess nýorðinn félagi í FCEM, heimssamtökum kvenatvinnurekenda og haustið 2023 sóttu nokkrar félagskonur heimsþing samtakanna sem haldið var í París.
Inntökuskilyrði
Skilyrði aðildar að Atvinnurekenda AUÐI er að eiga og reka fyrirtæki einar eða með öðrum - hafa verið með rekstur eða hyggja á sjálfstæðan rekstur.
Árgjald Atvinnurekenda AUÐS er viðbót við félagsgjald FKA og skal fjárhæð þess ákvörðuð á aðalfundi. Árgjaldið er ætlað til uppbyggingar og til að standa straum af kostnaði við þá viðburði sem félagið stendur fyrir sérstaklega. Viðbótargjaldið er 7.000 kr.
Núverandi samþykktir tóku gildi á aðalfundi AtvinnurekendaAUÐS þann 23. maí 2023.
Hlutverk Stjórnar
Atvinnurekenda AUÐUR starfar sem sjálfstæð eining undir FKA regnhlífinni með eigin kennitölu, árgjald, ársreikning og stjórn kosna á aðalfundi félagsins.
Skv. samþykktum skipa 7 konur aðalstjórn félagsins og tvær til vara. Aðalstjórnarkonur eru kosnar til tveggja ára í senn, – annað árið 3 og hitt árið 4, en konur í varastjórn eru kosnar til eins árs.
Stjórn Atvinnurekenda AUÐS skiptir sjálf með sér verkum og kýs úr sínum hópi formann, varaformann, ritara, gjaldkera og umsjónarkonu samfélags-miðla. Stjórnarfundir eru að jafnaði 7 á starfsári, þ.e. frá ágúst/sept. til loka maí mánaðar ár hvert.
Á stjórnarfundum skipta stjórnarkonur með sér verkefnum og ábyrgð á viðburðum starfsársins; kynningum á fyrirtækjum félagskvenna, fræðslufundum og námskeiðum að ógleymdum ferðum sem félagið skipuleggur. Þær hafa aðallega verið innanlands og markmiðið er að heimsækja sem flestar félagskonur í þeim landshluta sem heimsóttur er hverju sinni.
Fundargerðir stjórnarfunda svo og aðalfunda auk ársskýrslna eru aðgengilegar félagskonum á Facebook-síðu Atvinnurekenda AUÐS og á sérstakri síðu bjóða reglulega einhverjar A-AUÐS konur öllum FKA konum sérstaka afslætti á vörum sínum og/eða þjónustu.
Rétt er loks að árétta að almennt eru allar félagskonur FKA boðaðar til og boðnar velkomnar á viðburði og fundi sem A-AUÐUR stendur að – nema á aðalfund félagsins - og jafnframt er þátttaka í ferðum félagsins opin þeim öllum.
Atvinnurekenda AUÐUR
- Starfsemi félagsins
- Inntökuskilyrði
- Hlutverk Stjórnar
- Stjórn
- Saga Atvinnurekenda AUÐS

Stjórn
Aðalheiður Karlsdóttir Eignaumboðið slf. // alþjóðafulltrúi
Auður Ösp Jónsdóttir Info Data // gjaldkeri
Ásta Samúelsdóttir Fagsmíði // varaformaður
Erna Arnardóttir Golfsvítan // viðburðastjóri
Fjóla Friðriksdóttir SPA of Iceland // formaður
Katrín Rós Gýmisdóttir Metropolitan // ritari
Ragnheiður Ásmundsdóttir Misty, Gott Á.R. ehf. // almannatengill
Saga Atvinnurekenda AUÐS
Atvinnurekendadeild FKA var formlega stofnuð þann 30. október árið 2013 af 34 konum sem sóttu stofnfundinn og á aðalfundi 23. maí 2023 var samþykkt einróma að breyta nafni deildarinnar í Atvinnurekenda AUÐUR.
Við þau tímamörk – 10 árum eftir stofnun - voru félagskonur orðnar fleiri en 400.