Beint í efni
Mínar síður

Jafnvægisvog FKA

Verkefnið hefur þann tilgang að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi. Markmið Jafnvægisvogar FKA er að hlutföllin verði 40/60 í framkvæmdastjórnun.

Ávarp formanns

Ásta Dís Óladóttir formaður Jafnvægisvogarinnar

Þrátt fyrir að Ísland leiði nú lista Alþjóðaefnahagsráðsins 14. árið í röð og hefur því staðið sig best í því að jafna tækifæri kynjanna í samfélaginu, þá er margt óunnið hér á landi til þess að loka því kynjabili sem hér er til staðar. Segja má að Ísland sé til fyrirmyndar í nær öllum flokkum sem Alþjóðaefnahagsráðið metur, nema í efnahagslegri þátttöku kynjanna, þar hallar verulega á konur, sér í lagi þegar kemur að stjórnunarstörfum. Þá hefur orðið bakslag frá árinu 2021 þegar kemur að jafnrétti í launum og hlutfalli kvenna í æðstu stjórnunarstöðum hjá hinu opinbera og er Ísland nú á svipuðum stað og árið 2017. Þrátt fyrir að við berjum okkur á brjóst og tölum á hátíðlegum stundum um jafnréttisparadísina Ísland, þá búa konur og karlar hér á landi ekki við jöfn tækifæri þegar kemur að efnahagslegri þátttöku í samfélaginu. 

Hægt að auka verga landsframleiðslu

Þetta er ekki einsdæmi hér á landi því samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðabankans er kynjabil í atvinnulífinu, þegar kemur að jöfnum tækifærum kynjanna á heimsvísu, mun meira en áður var talið. Úrtak Alþjóðabankans náði til 190 landa og niðurstaðan var sú að ekkert land í heiminum veitir konum sömu tækifæri og körlum í atvinnulífinu. Allt kapp ætti að vera lagt á að brúa þetta bil, því samkvæmt fyrrgreindu úrtaki þá gæti breyting á þessu sviði aukið verga landsframleiðslu á heimsvísu um allt að 20%. Því er til mikils að vinna.

Ísland hefur þó stigið ýmis skref til þess að ýta undir jöfn tækifæri kynjanna. Kynjakvótalög voru að fullu innleidd hér á landi á stjórnir félaga með 50 eða fleiri starfsmenn árið 2013 og var þeim ætlað að hafa „smitáhrif“ á framkvæmdastjórastöður. Með auknum fjölda kvenna í stjórnum félaga, myndi konum í stöðu forstjóra/framkvæmdastjóra án efa fjölga. Stuttu eftir innleiðingu kynjakvótans hér á landi fjölgaði konum, en nær eingöngu í þeim fyrirtækjum sem lögin giltu um. Því var ljóst að eitthvað yrði að gera til þess að breyta stöðunni. 

Jafnvægisvog FKA

Jafnvægisvog FKA var hleypt af stokkunum árið 2018. Jafnvægisvogin er mælitæki sem hefur eftirlit með stöðu og þróun kynjajafnréttis í stjórnum og framkvæmdastjórnum íslenskra fyrirtækja. Markmiðið með Jafnvægisvoginni er að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja a.m.k. 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. 

Þá snúa verkefni Jafnvægisvogarinnar að því að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir, og að taka saman heildræna stöðu og niðurstöðu greininga á stöðu stjórnenda í íslensku atvinnulífi, og birta niðurstöður. Jafnvægisvogin veitir stjórnendum fyrirtækja sem hafa náð markmiðum um jöfn tækifæri kynjanna viðurkenningar árlega. Þá stendur Jafnvægisvogin einnig fyrir viðburðum og vekur máls á stöðu kynjanna þegar kemur að jöfnum tækifærum með það að markmiði að vekja samfélagið til hugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis.

Hlutfall kvenna í stjórnum stórra fyrirtækja lækkar

Hlutfall kvenna í stjórnum stórra fyrirtækja, það er með 50 launþega eða fleiri, þar sem stjórnarmenn voru fjórir eða fleiri, var 41,4% í tilfelli almennra hlutafélaga á árinu 2023 og 36,5% í einkahlutafélögum. Samsvarandi hlutfall var 41,8% og 38,3% á árinu 2022 og lækkar því hlutfall kvenna í stjórnarformum af þessu tagi lítillega á milli ára. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja hefur farið heldur hækkandi síðasta áratug en lækkar nú frá fyrra ári fyrir flest stjórnarform stórra félaga. Almennt má merkja að hlutfall kvenna í stjórnum félaga sé hærra bæði þegar stærð stjórna og stærð fyrirtækja er meiri heldur en minni. Þá er hlutfallið hærra í almennum hlutafélögum en í einkahlutafélögum.

Skráðu félögin 

Sé eingöngu litið til skráðra félaga á markaði, sem í maí 2024 eru 27 talsins, er hlutfall kvenna í stjórnum 42,9%. Hlutfall kvenkyns stjórnarformanna er 11% þar sem þrjár konur gegna formennsku í skráðum félögum. Af forstjórunum 27 eru nú þrjár konur og hlutfall kvenna hefur lækkað það sem af er ári, úr 15,4% í 11%. Hlutfall kvenna í framkvæmdastjórnarstöðum (næsta stjórnunarlag fyrir neðan forstjóra) hefur einnig lækkað á árinu, úr 31,7% í 28,4% (Gemma Q, 10. maí 2024). Af félögunum 27 eru sex félög sem hafa enga konu í framkvæmdastjórn, þar af fimm félög sem hafa afar einsleita yfirstjórn, með karlkyns stjórnarformann, karlkyns forstjóra og alla framkvæmdastjórnina skipaða körlum. Félögin fimm uppfylla þó lágmarksskilyrði kynjakvótalaganna, með konur sem 40%.

Langt undir markmiðum Jafnvægisvogarinnar 

Hlutfall kvenna sem æðstu stjórnenda er langt undir því markmiði sem forsætisráðuneytið og Félag kvenna í atvinnulífinu settu árið 2018, er gerður var samningur um stuðning stjórnvalda við Jafnvægisvogina. Tilgangur verkefnisins er að stuðla að jafnari hlut kvenna og karla í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi, með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja.

Þetta þótti mjög metnaðarfullt markmið á sínum tíma, en ekki óraunhæft. Samkvæmt spálíkani sem ég kynnti á síðustu ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar þá mun markmiðið ekki nást að óbreyttu. Rökin eru þau að þó enn séu þrjú ár til stefnu þá verður þetta kynjabil ekki brúað þegar 75% allra nýráðninga í æðstu stöður eru karlar. Ef haldið er áfram á sömu braut, að um 10% fyrirtækja skipti um framkvæmdastjóra á ári hverju og konur eru 25% af þeim nýráðningum sem eiga sér stað og fjölgar um 1% á ári, þá er það í fyrsta lagi árið 2048 sem markmiðinu gæti verið náð. Af þessu má sjá að það að vera fyrirmynd og að standa undir tali um jafnréttisparadís, þá þurfa stjórnir félaga að taka ákvörðun um að auka jafnrétti innan sinna raða.

Samstarfsaðilar

Án samstarfsaðila væri verkefni á borð við Jafnvægisvogina ekki gerlegt og við eigum í afar ánægjulegu samstarfi við stjórnendur og starfsmenn styrktaraðila verkefnisins. Fyrst ber að nefna forsætisráðuneytið sem hefur styrkt verkefnið frá upphafi og fyrrverandi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir hefur verið þar fremst í flokki. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka Katrínu sérstaklega fyrir hennar mikilsverða stuðning við jafnrétti á Íslandi, það verður aldrei metið til fjár. Þá hafa Pipar\TBWA, Sjóvá og Ríkisútvarpið stutt afar vel við verkefnið undanfarin ár með ómetanlegu framlagi. Deloitte, Creditinfo og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa einnig gengið til liðs við Jafnvægisvogina, og er þeim öllum þakkað fyrir einstakt samstarf. Það er ljóst að án slíkra styrktaraðila væri verkefnið ekki gerlegt og Jafnvægisvogin stendur og fellur með framlagi frá þessum aðilum, hvort heldur fjár- eða vinnuframlagi. Þá ber einnig að þakka Andreu Róbertsdóttur, framkvæmdastjóra FKA, og verkefnastjóra Jafnvægisvogarinnar, Bryndísi Reynisdóttur – vinna þeirra í þágu þessa málefnis er ómetanlegt.

Ásta Dís Óladóttir

Formaður Jafnvægisvogarinnar