Fréttir
  • Logo_1525937712401

Jafnvægisvogin

10. maí 2018

Fréttatilkynning frá FKA um Jafnvægisvog

Árið 2027 verði hlutfall kynja í framkvæmdastjórnum 40/60

Félag kvenna í atvinnulífinu hefur ásamt samstarfsaðilum úr Velferðarráðuneytinu og viðskipta-lífinu sett af stað hreyfiaflsverkefnið Jafnvægisvogina. Markmið Jafnvægisvogarinnar er að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi.

„Fyrirtæki sem ekki ráða konur í stjórnunarstöður missa einfaldlega af gríðarlegum mannauði, menntun og reynslu. Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja sem ná til fyrirtækja með 50 starfs-menn eða fleiri hafa ekki veitt konum á Íslandi aukin völd innan stjórna fyrirtækjanna. Jafnvægisvogin er eitt af hreyfiaflsverkefnum FKA og eru samstarfsaðilar okkar Velferðarráðuneytið, Sjóvá, Deloitte og Morgunblaðið, auk þess sem Pipar hannaði nýtt merki Jafnvægisvogar," segir Guðrún Ragnarsdóttir, stjórnarkona FKA og talsmaður Jafnvægisvogarinnar.

Markmið Jafnvægisvogarinnar er að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmda-stjórnum fyrirtækja á Íslandi. Mótuð hefur verið fimm ára framkvæmdaáætlun til að styðja við þetta markmið en tilgangur verkefnisins er eftirfarandi:

1.       Að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi.

2.       Að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir.

3.       Að veita viðurkenningar og draga fram í sviðljósið fyrirtæki sem hafa náð markmiðum Jafnvægisvogarinnar.

4.       Að standa fyrir viðburðum og fræðslu og vekja samfélagið til hugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis.

5.       Að taka saman heildræna stöðu og niðurstöðu greininga á stöðu stjórnenda í íslensku atvinnulífi og birta niðurstöður.

Á öðru ári verður Jafnvægisvogarmerkið veitt og með því verða dregin fram í sviðljósið fyrirtæki sem hafa náð markmiðum Jafnvægisvogarinnar eftir þeim mælikvörðum sem við munum skilgreina. Konur eru 67% útskrifaðra háskólanema en einungis 11% forstjóra – eftir því sem fyrirtækin eru stærri fækkar konum í framkvæmdastjórastöðum. Þessar upplýsingar er meðal annars allar að finna í skýrslu félags- og jafnréttismálaráðherra 2015-2017 sem gefin var út fyrir Jafnréttisþing í upphafi árs. Þar kemur einnig í ljós að hlutfall kvenna í stöðu stjórnarformanna var einungis 23,9% í lok árs 2016 sem er afturför. Þessu þarf að breyta.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica