Fréttir
  • 2_1548963933563

FKA Viðurkenningarnar 2019

31. jan. 2019

FKA heiðrar Margréti Kristmannsdóttur, Sigríði Snævarr og Helgu Valfells

1_1548963934644FKA, Félag kvenna í atvinnulífinu, afhenti í dag sínar árlegu viðurkenningar í Gamla bíó að viðstöddu fullu húsi og fjölda þeirra karla og kvenna sem standa í framlínu íslensks viðskipta- og atvinnulífs. Viðurkenningar FKA hafa verið veittar frá stofnun félagsins árið 1999 og fagnar félagið 20 ára starfsafmæli á árinu.  

2_1548963933563Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff, hlaut FKA Viðurkenninguna. Sigríður Snævarr sendiherra fékk Þakkarviðurkenningu FKA og Helga Valfells, framkvæmdastjóri Crowberry Capital, Hvatningarviðurkenningu FKA.

Sannkölluð hátíðarstemning var í Gamla bíó þar sem þær þrjár voru heiðraðar fyrir eftirtektarverð störf þeirra og framlag í atvinnulífinu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra veitti viðurkenningarnar ásamt formanni FKA, Rakel Sveinsdóttur.

„Við erum svo rík af mannauði og krafti íslenskra kvenna og þær Margrét, Sigríður og Helga, sem FKA heiðraði í dag, standa svo sannarlega undir því nafni að vera okkur hinum miklar fyrirmyndir. Ég óska þeim og aðstandendum þeirra innilega til hamingju með daginn og þakka fráfarandi dómnefnd fyrir þeirra störf,“ segir Rakel Sveinsdóttir, formaður FKA.


FKA viðurkenninguna 2019 hlaut Margrét Kristmannsdóttir

Margrét Kristmannsdóttir hefur verið framkvæmdastjóri PFAFF í 25 ár. Hún situr einnig í stjórn BL, Rekstrarfélag Kringlunnar og Bankasýslu ríkisins.

Margrét hefur lengi verið meðal helstu leiðtoga í atvinnulífinu, sat í stjórn Félags atvinnurekenda á árunum 1999-2008, er fyrrum formaður FKA til fjögurra ára og sat í stjórninni á árunum 2002-2009. Hún var formaður Samtaka verslunar og þjónustu um fimm ára skeið til ársins 2014. Á sama tíma sat hún í framkvæmdastjórn og stjórn Samtaka atvinnulífsins, síðast sem varaformaður.

PFAFF fagnar 90 afmæli á árinu og er eitt elsta fjölskyldufyrirtæki landsins en afi Margrétar stofnaði fyrirtækið árið 1929. Pfaff hefur frá upphafi fengið viðurkenningu Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki en einungis um 75 fyrirtæki á Íslandi hafa hlotið þann heiður.

Margrét er með MBA gráðu frá Stetson University. Hún lauk námi í Viðskiptafræði við HÍ eftir stúdentspróf frá Verslunarskóla Íslands.

Í umsögn dómnefndar kemur m.a. fram: Margrét hefur gegnt ábyrgðamiklu hlutverki í íslensku atvinnulífi í áratugi, bæði í eigin atvinnurekstri og með eftirtektarverðri þátttöku sinni í hinum ýmsu stjórnar- og félagsstörfum. Margrét hefur einnig lagt mikilvægt framlag til jafnréttismála og verið konum einstök hvatning og fyrirmynd.“

Hvatningarviðurkenningu FKA 2019 hlaut Helga Valfells

Helga Valfells er framkvæmdastjóri og meðstofnandi Crowberry Capital. Hún kom að stofnun Samtaka íslenskra framtaksfjárfesta árið 2018 og er stjórnarformaður félagsins. Hún er varaformaður stjórnar Íslandsbanka og Símans.

Crowberry Capital, sem hún stofnaði með Heklu Arnardóttur og Jennýju Ruth Hrafnsdóttur um mitt ár 2017, er nýsköpunarsjóður sem fjárfestir í ungum tækni- og þekkingarfyrirtækjum sem hyggja á vöxt á alþjóðamörkuðum. Crowberry hefur fjárfest í sex fyrirtækjum og er með áform um að fjárfesta í alls 10 til 15. Hluthafar í Crowberry eru lífeyrissjóðir og einkafjárfestar. 

Helga var áður framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (NSA), og Stjórnarformaður Frumtaks frá árinu 2010 til 2016.  Hjá NSA starfaði Helga með yfir 50 tæknifyrirtækjum. Hún hefur verið virkur þátttakandi í íslensku nýsköpunarumhverfi frá aldamótum og setið í stjórn 16 nýsköpunarfyrirtækja.    

Helga starfaði erlendis í um áratug og vann þá  m.a. fyrir Estée Lauder UK, Merrill Lynch og Alþjóða Rauða krossinn.  Hérlendis hefur Helga einnig unnið hjá Útflutningsráði Íslands, Íslandsbanka og verið aðstoðarmaður viðskiptaráðherra.  

Helga er með B.A. gráðu frá Harvard University og MBA gráðu frá London Business School.

 

Í umsögn dómnefndar kemur m.a. fram: „Helga hefur látið til sín taka í íslensku nýsköpunarumhverfi með eftirtektarverðum hætti en hún var áður framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins en stofnaði árið 2017 framtakssjóðinn Crowberry Capital ásamt Heklu Arnardóttur og Jenny Ruth Hrafnsdóttur. Nýlega átti hún jafnframt þátt í því að koma á fót evrópsku félagi kvenna í framtaksfjárfestingum. Helga hefur í gegnum margvísleg störf sín verið konum mikil hvatning.“

 

Þakkarviðurkenningu FKA 2019 hlaut Sigríður Ásdís Snævarr

Sigríður Snævarr hefur gegnt sendiherrastöðu í 28 ár og hefur hún frá 2017 veitt deild heimabúsettra sendiherra forstöðu og er nú sendiherra gagnvart Páfagarði, Singapúr og Ástralíu. Hún varð fyrst íslenskra kvenna til að gegna sendiherrastöðu þegar hún var skipuð sendiherra í Stokkhólmi árið 1991. Sigríður hefur helgað diplómatastarfinu líf sitt. Reynsla hennar og þekking hafa gert hana að vinsælum ræðumanni. Fjörutíu ár eru síðan hún var ráðin í utanríkisráðuneytið og er sérstakt áhugasvið hennar símenntun, nýsköpun og umbreyting atvinnulífsins inn í alþjóðageirann. 

Hún stofnaði ásamt Maríu Björk Óskarsdóttur fyrirtækið Nýttu kraftinn árið 2008 í leyfi frá utanríkisþjónustunni. Á þeim fimm árum sem þær störfuðu saman nýttu sér 1.100 atvinnuleitendur þjónustu þeirra auk þess sem þær gáfu út bókina Nýttu kraftinn 2013. 

Sigríður er með meistaragráðu frá Fletcher School of Law and Diplomacy í Boston. Áður hafði hún útskrifast sem BscEcon frá London School of Economics, en fyrsta árið eftir stúdentspróf stundaði hún ítölsku nám í háskólanum í Perugia.

Í umsögn dómnefndar kom m.a. fram: „Sigríður braut blað í sögu Íslands árið 1991 þegar hún var skipuð fyrsti íslenski kvensendiherrann, en hún á að baki fjörutíu ára farsælan feril í utanríkisráðuneytinu. Á einstökum ferli, bæði í stjórnsýslu  og atvinnulífi, hefur hún helgað sig því að gæta hagsmuna lands og þjóðar og leita tækifæra fyrir Ísland á alþjóðlegri grundu.“ 

Dómnefnd 2019 skipaði fjölbreyttur hópur fólks úr atvinnulífinu en yfir 100 tilnefningar bárust til félagsins.

  • Hafdís Jónsdóttir, fyrrum formaður FKA og forstjóri Laugar Spa
  • Anna Þóra Ísfold, stjórnarkona FKA og sölustjóri Heilsuborgar
  • Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups
  • Hrund Rudólfsdóttir, forstjóri Veritas
  • Sigurður Brynjar Pálsson, Forstjóri BYKO
  • Ari Kristinn Jónsson, Rektor HR
  • Sæmundur Sæmundsson, Forstjóri Borgun

 

 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica