Á döfinni
06.02.2020 Skyrgerðin, Hveragerði

Get ég fjármagnað verkefnið mitt?

Suðurland - Nýsköpunarnefnd

Get-eg-fjarmagnad-verkefnid-mitt_-FKA

 

FKA suðurlands og nýsköpunarnefnd FKA standa saman að umræðufundi um fjármögnun nýsköpunarverkefna þar sem Ragnhildur, Hulda og Erna Hödd deila með okkur reynslu sinni við fjármögnun fyrirtækja sinna í þeim tilgangi að hjálpa og hvetja aðrar konur við að sækja um styrki/fjármagn. 

Mesti lærdómurinn felst oft í því sem ekki gengur upp og reynslusögur þessarra kvenna innihalda bæði sögur af sigrum og ósigrum.

Þær Ragnhildur, Hulda og Erna eiga það sameiginlegt að hafa fengið styrk frá Uppbyggingasjóði Suðurlands til aðstoðar til að koma sinni hugmynd í framkvæmd.

Við fáum innsýn í umsóknarferlið í Uppbyggingasjóð Sunnlenskra sveitarfélaga þar sem Ingunn er ráðgjafi og Svava fræðir okkur um stuttar og hnitmiðaðar kynningar til þess fallnar að “selja” verkefni áhugasömum. 

Viðburðurinn verður hjá Elfu Dögg á Skyrgerðinni í Hveragerði.Að loknum kynningum verður boðið upp á mat sem gestir borga fyrir sig.

Stefnt verður að því að viðburðinum verði streymt.

Dagskrá:

18:00  Fundarstjóri Laufey Guðmundsdóttir, setur samkomu

18:05 Reynslusaga frá Ragnhildi Ágústdóttur stofnanda Icelandic lava show

18:20 Reynslusaga frá Huldu Brynjólfsdóttur stofnanda Uppspuna, smáspunaverksmiðju

18:35 Reynslusaga frá Ernu Hödd Pálmadóttur stofnanda Beauty by Iceland

18:50 Uppbyggingarsjóður Sunnlenskra sveitarfélaga, kynning frá Ingunni Jónsdóttur

19:00 Að kynna verkefni á stuttan og hnitmiðaðan hátt, Svava Ólafsdóttir

19:15 Matur og spjall

Verð 2.950.-
Tilboð verður á léttvínum og bjór

Ragnhildur Ágústsdóttir er frumkvöðull og athafnakona með afar fjölbreyttan bakgrunn. Í dag starfar hún sem sölustjóri hjá Microsoft á Íslandi samhliða því að reka sitt eigið fyrirtæki ásamt manni sínum, nánar tiltekið Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal. Sagan á bak við stofnun þess er ævintýri líkust og hún ætlar að segja okkur stuttlega frá því og miðla af reynslu sinni um fjármögnun og mikilvægi þess að gefast ekki upp.

Hulda Brynjólfsdóttir er alin upp í sveit og vann við tamningar í 15 ár þegar hún varð að hætta vegna meiðsla. Þá fór Hulda í kennaranám og vann við kennslu í önnur 15 ár. Hugur og hjarta snerist alltaf um búskap og að vera bóndi æðsti draumurinn. Þegar það síðan gerðist 2010, var farið á kaf í annað áhugamál sem er gamalt handverk og fornar íslenskar hefðir með nútímaívafi. Hulda lærði að spinna á rokk og kynntist möguleikum ullarinnar á nýjan hátt. Árið 2017 urðu kaflaskil í hennar lífi (ekki í fyrsta sinn) þegar hún ákvað að hætta kennslu, fékk nýtt hné og flutti inn ullarvinnsluvélar frá Kanada. Hulda stofnaði smáspunaverksmiðjuna Uppspuna sumarið 2017 og hefur rekið hana með eiginmanni sínum síðan.

Erna Hödd Pálmadóttir er 28 ára gömul og hefur hingað til stundað nám í viðskiptafræði í Háskóla Íslands . Erna starfaði sem flugfreyja hjá Wow air og fór þá virkilega að hugsa um heilsu húðar og hver innihaldsefni voru í vörum á markaði í dag. Fjölskylda hennar hefur ræktað grænmeti síðan 1930 og sá hún þá að í bakgarðinum var endalaust af hráefni til nú þegar. Erna sá sérstaklega hversu miklu var hent og þá einungis vegna útlitsgalla og vildi hún nýta sér það tækifæri í að þróa hreinar vörur úr íslenskri ræktun sem aðrir sáu ekki sem verðmæti. Á árinu 2019 stofnaði hún fyrirtæki sitt Beauty by Iceland þar sem hún framleiðir snyrtivörur úr "gölluðu" grænmeti sem fellur til.

Ingunn Jónsdóttir (MPM) er verkefnastjóri hjá Háskólafélagi Suðurlands og ráðgjafi hjá SASS (Sambandi Sunnlenskra sveitarfélaga). Auk ráðgjafar hefur Ingunn stýrt stórum sem smáum verkefnum á Suðurlandi eins og Starfamessunni og Umhverfis Suðurland. 

Svava Ólafsdóttir (MPM) hefur viðamikla reynslu úr frumkvöðlaumhverfinu en hún starfaði hjá Icelandic Startups í fimm ár þar sem hún sinnti ráðgjöf og stýrði viðskiptahröðlum og öðrum verkefnum. Hún er ein af stofnendum RATA sem hefur þann tilgang að efla einstaklinga og teymi og stýrir meðal annars stuðningsverkefninu Trúnaðarmaður frumkvöðla.

Fundastjóri er Laufey Guðmundsdóttir (MPM) sem starfar sem verkefnastjóri  Áfangastaðaáætlunar Suðurlands hjá Markaðsstofu Suðurlands sem og er sjálfstæður ICF leiðtogamarkþjálfi og vottaður teymismarkþjálfi.

 

 

Bókunartímabil er frá 24 jan. 2020 til 4 feb. 2020

Þetta vefsvæði byggir á Eplica