Á döfinni
27.01.2019 kl. 11:00 - 12:30

FKA Framtíð - Sunnudagsfundur #4

Hvernig er best að samræma vinnu og einkalíf

Á fjórða Sunnudagsfundi FKA Framtíðar ætlum við að grafa ofaní eitt af því sem við flestar glímum við dagsdaglega; Hvernig best er að samræma vinnu og einkalíf. 

Anna Steinsen eigandi og einn af stofnendum Kvan þjálfunarmiðstöðvar sem hefur það að markmiði að styðja fólk til að ná að virkja það sem í þeim býr og veita þeim aðgengi að styrkleikum sínum. Anna hefur áratugareynslu í markþjálfun og kennslu á góðum leiðum til þess að tækla mismunandi áskoranir sem lífið færir okkur í hendur, en áður en hún stofnaði Kvan vann hún í rúm 12 ár sem þjálfari hjá Dale Carnegie. Hún mun á þessum sunnudagsfundi deila reynslu sinni með okkur á því hvernig best er að samræma vinnu og einkalíf ásamt því að gefa okkur góð tól til þess að taka með okkur heim okkur til nota. 

Meira um Kvan

KVAN stendur fyrir „Kærleik, Vináttu, Alúð og Nám“. Kærleikur og umhyggja leggja grunninn að því hvernig við hlúum að og byggjum upp tengsl við okkur sjálf, okkar nánustu, samstarfsfólk og þátttakendur. Hugarfarið sem fylgir kærleik og umhyggju mótar afstöðu og athafnir okkar til hluta, hugmynda og náttúrunnar. Vinátta og virðing leggur grunninn að samstarfi okkar sem störfum hjá KVAN og við vinnum markvisst með vináttu og vináttuþjálfun á námskeiðum fyrir fagfólk og ungmenni. Alúð við samferðafólk og við þau verkefni sem við glímum við hverju sinni er okkur mjög mikils virði. Við trúum því að alúð hjálpi okkur að nálgast verkefnin af einlægni og vandvirkni og gefi okkur kost á að fylgja hjartanu; eigið siðvit og næmni, þegar þörf er á. Við sjálf erum nemendur í okkar lífi. Nám, að læra, að skilja betur, tengja, reyna aftur og spyrja spurninga stýrir því sem við gerum og er megintilgangur með okkar starfi. Við viljum að fólk læri á fyrirlestrum okkar, námskeiðum og þegar við veitum ráðgjöf og stuðning.

Reynsla er algjörlega miðlæg í hugmynda- og kennslufræði KVAN. Á námskeiðum okkar beitum við aðferðum sem eru reynslumiðaðar. Í stuttu máli viljum við vinna með huga, hjarta og hönd þar sem reynslumiðað nám er grundvöllur starfsins. Reynslumiðað nám (e. experiential learning) er að sumra mati allt í senn, aðferð, lífsstíll og heimspeki. Um er að ræða ferli þar sem einstaklingurinn byggir upp þekkingu, öðlast færni og breytir gildismati sínu vegna beinnar reynslu.

Virkni og þátttaka er lykilþáttur. Við hvetjum fólk til þess að taka þátt, ígrunda eigin reynslu og meta á gagnrýninn hátt og byggja á þeim lærdómi sem það, í samfélagi við annað fólk, beitir í lífi og starfi. Það sem reynslumiðað nám gerir einna best er að styrkja tilfinningu þátttakandans fyrir eignarhaldi á því sem lært er. Sú tilfinning eykur áhuga og virkni, en mikilvægara er þó, að hún styður verulega við yfirfærslu námsins í aðrar aðstæður í lífi og starfi. Ávinningurinn er sá, að einstaklingurinn gengst við ábyrgð á námi sínu og hegðun, frekar en að velta þeirri ábyrgð yfir á aðra.

Í allri vinnu með reynslu, ígrundun og hugsanlega yfirfærslu þarf að huga að fyrri reynslu þátttakenda, ræða um markmið og væntingar þeirra og gefa færi á ígrundun í ferlinu og ígrundun eftir reynsluna. Með öðrum orðum má segja að reynslumiðað nám fáist við ytri og innri breytingar.

Við hjá KVAN trúum því að von og traust sé gott veganesti í lífinu. Von er tiltrú eða væntingar um jákvæða niðurstöðu og möguleika á að ná markmiðum sínum. Traust á aðstæðum, öðrum, sjálfum sér og samferðafólki.

 

Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna á lokaðri facebook síðu FKA Framtíðar.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica