Á döfinni

22.09.2017 - 24.09.2017 Atburðir

Haustferð FKA 22 - 24 september - Vestfirðir

FKA-HAustferd

Haustferð FKA verður haldin 22.-24. september og opnar skráning í ágúst eftir Verslunarmannahelgi – Taktu þessa helgi frá kæra FKA kona
 

FKA konur leggja land undir fót, ferðinni er heitið til Vestfjarða, þar sem Flóki sigldi að landi og fjarðarstrendur eru fylltar sandi. Markmið ferðarinnar er tengslamyndun, fræðsla, fjör og ferðalag inn á við.

 

Rauði þráður ferðarinnar verða frásagnir fólks úr atvinnulífinu á Vestfjörðum, hvar sem fæti verður stigið niður, áskoranir og tækifæri við vegferð stofnunar og reksturs fyrirtækja. Áhersla verður lögð á tengslamyndun og eflingu við atvinnulífið, heimsóknir til fjölbreyttra fyrirtækja í framleiðslu, ferðaiðnaði og nýsköpun. 

DAGSKRÁ

Föstudagur 22. september

Lagt verður af stað á föstudagsmorgni og keyrt til Reykhóla í fyrirtækjaheimsókn til Norðursalts og Sjávarsmiðjunnar. Þar munu FKA konur fara í hin margrómuðu leirboð og njóta hádegisverðar áður en ferðinni er haldið áfram til Bjarnafjarðar. Gist verður á sveitahótelinu Laugarhóli sem státar af því besta sem Vestfirðir hafa upp á að bjóða, fegurð fjarðanna og fjalla, sveitasælu og dásamlegri laug sem er opin allan sólarhringinn. FKA hefur tekið staðinn frá fyrir þannig við njótum þess að eiga góðar stundir, næringar innávið, sveitakvöldverðar og samflots í sveitalaug.  

Laugardagur 23. september

Eftir góðan morgunmat liggur leiðin til Bolungarvíkur þar sem við munum byrja á því að rétta úr okkur og eiga málsverð með sögulegu ívafi í Einarshúsi. Vel verður tekið á móti okkur af fyrirtækjum í framleiðslugreinum á Bolungarvík. Leiðin liggur svo til Ísafjarðar þar sem tékkum okkur inn á Hótel Ísafjörð og eigum fund með Vestfjarðanefnd FKA, um kvöldið verður kokteill og hátíðarkvöldverður. 

Sunnudagur 24. september

Sunnudagur er heimferðadagur, frjáls tími að morgni, getum notið bæjarkyrrðar eða hvílt lúin bein. Heimferð verður greiðari en vesturferðin en við ætlum að stoppa á Melrakkasternu í Súðavík, þar njótum við hádegisverðar og hittum fyrir stofnanda setursins sem nú á 10 ára afmæli. Á heimleiðinni verður stoppað stuttlega á Hólmavík og Búðardal, þar sem fyrirhugað er að hitta konur í atvinnulífinu. Áætluð heimkoma er seinnipart sunnudags. 

Opnað verður fyrir skráningu í ferðina í ágúst en hámarksfjöldi eru 50 konur og því mikilvægt að skrá sig sem fyrst eftir Verslunarmannahelgina en hvetjum konur til að taka helgina 22.-24. september frá. 

Áætlaður kostnaður er 59.900 kr. með öllu inniföldu; ferðalagi, gistingu, morgunmat, hádegismat, kvöldmat og allra veitinga sem við njótum að veigum undanskyldum. 

Með sumarkveðju frá framkvæmdastjóra og ferðanefnd FKA

Hrafnhildur Hafsteinsdóttir - Framkvæmdastjóri FKA
Anna Þóra Ísfold – Isfold - markaðsráðgjöf 
Elísabet Ósk Guðjónsdóttir - Framkvæmdastjóri Payroll
Ragnheiður Friðriksdóttir - Eigandi Reykjavík Concierge

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica