Fréttir

Pipar\TBWA sér um markaðsmál Jafnvægisvogar FKA

okt. 8, 2018

Félag kvenna í atvinnulífinu hefur skrifað undir samstarfssamning við Pipar\TBWA um aðstoð við gerð á heildarútliti á markaðsefni hreyfiafslverkefnisins Jafnvægisvogarinnar. FKA hóf vinnu við Jafnvægisvogina í upphafi árs ásamt samstarfsaðilum úr velferðarráðuneytinu. Aðrir samstarfsaðilar eru Deloitte, Sjóvá og Morgunblaðið. Markmið Jafnvægisvogarinnar er að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi.

„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá jafn sterka samstarfsaðila og Pipar til þess að aðstoða okkur við að hreyfa við fólki um jafnréttismálin. Pipar er eitt þeirra fyrirtækja sem eru til fyrirmyndar í jafnréttismálum með jafnt kynjahlutfall í stjórnendastöðum. Það skiptir máli að móta skýr og eftirtektarverð skilaboð sem hreyfa við forsvarsmönnum fyrirtækja. " segir Guðrún Ragnarsdóttir, talskona Jafnvægisvogar FKA.

Hannað hefur verið merki Jafnvægisvogar og starfsmenn Pipars munu vinna hugmyndavinnu og heildarútlit á markaðsefni auk þess að móta skilaboð verkefnisins.

„ Við höfum unnið markvisst að því hjá okkur á Pipar\TBWA að jafna kynjahlutfallið bæði meðal starfsfólks og í stjórnunarstöðum og við trúum því að það hafi hjálpað okkur að ná árangri. Við vorum fyrsta fyrirtækið í skapandi greinum til að fá Jafnlaunavottun VR og erum eitt af Fyrirtækjum ársins 2018 svo þetta er fullkomlega eðlilegt framhald fyrir okkur að taka þátt í Jafnvægisvoginni. Við þekkjum af eigin raun að jafnvægi skilar betri vinnu og ánægðara starfsfólki – og það er það sem skiptir máli." segir Vigdís Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Pipar\TBWA.

Pipar-FKA-2Markmið Jafnvægisvogarinnar er að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmda-stjórnum fyrirtækja á Íslandi. Einnig er fyrirhugað að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir. Dregin verða fram í sviðljósið fyrirtæki sem hafa náð markmiðum Jafnvægisvogarinnar. Í vetur mun Jafnvægisvogin standa fyrir viðburðum og fræðslu til að vekja samfélagið til hugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis og verður fyrsti viðburðurinn ráðstefna sem haldin verður þann 31. október næstkomandi. 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica