Fréttir

Bréf til fyrirtækja

sep. 4, 2018

Nýlega fengu fyrirtæki sem lokið hafa jafnlaunavottun og fyrirtæki sem eru að hefja undirbúning að því bréf frá Jafnvægisvoginni þar sem þeim er boðið að skrifa undir viljayfirlýsingu um að vinna eftir markmiðum Jafnvægisvogar. Skrifað verður undir á ráðstefnu sem haldin verður 31. október næstkomandi. Bréfið er svohljóðandi: 

Kæri stjórnandi,

Bréf þetta er sent til fyrirtækja sem öðlast skulu jafnlaunavottun eigi síðar en 31. desember 2018 til að kynna Jafnvægisvogina sem Félag kvenna í atvinnulífinu, (FKA) hefur hleypt af stokkunum í samstarfi við velferðarráðuneytið og fyrirtækin Sjóvá, Deloitte, Pipar/TWBA og Morgunblaðið. 

Í alþjóðlegum samanburði er Ísland leiðandi í heiminum þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Árið 2018 var Ísland í toppsæti Alþjóðaefnahagsráðsins 9. árið í röð sem jafnréttasta land í heimi (e. World Economic Forum – Global Gender Gap Index).  Þrátt fyrir það  eigum við enn talsvert langt í land til þess að ná fullu jafnrétti í atvinnulífinu. 

Árið eftir gildistöku laga um 40/60 kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja með 50 starfsmenn eða fleiri fór hlutfall kvenna upp í 33,2% en hefur síðan farið lækkandi. Lögin hafa heldur ekki haft þau jákvæðu hliðaráhrif sem vonir stóðu til um aukinn hlut kvenna almennt sem stjórnarmenn og æðstu stjórnendur, framkvæmdastjórar og forstjórar.  Í árslok 2017 var hlutfall kvenna sem stjórnarmanna í fyrirtækjum almennt 25,9% og hlutfall kvenna sem stjórnarformanna 23,9%. 

Markmiðið Jafnvægisvogarinnar er að kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum fyrirtækja verði orðið 40/60 árið 2027. Fyrsta verkefni Jafnvægisvogarinnar er að taka saman heildrænt yfirlit yfir stöðu stjórnenda í íslensku atvinnulífi og birta niðurstöðurnar. Á grundvelli niðurstaðnanna munum við draga fram í sviðljósið fyrirtæki sem eru að gera vel og veita þeim viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar. Við munum jafnframt standa fyrir viðburðum og fræðslu til að vekja samfélagið til umhugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis. 

Rannsóknarniðurstöður eru á eina leið: fjölbreyttur mannauður hefur jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækja sem og starfsánægju og frammistöðu í starfi, stuðlar að betri ákvarðanatöku og aukinni verðmætasköpun þar sem nýsköpun og vöxtur verður frekar í hópi fólks með ólíkar skoðanir og bakgrunn. 

Með þessu bréfi bjóðum við fyrirtækinu þínu að vera með í liðinu sem mun koma Íslandi í fremstu röð þegar kemur að jafnrétti í atvinnulífinu. Þannig bjóðum við þér að skrifa undir viljayfirlýsingu þess efnis að þitt fyrirtæki heiti því að vinna að markmiðum Jafnvægisvogarinnar til næstu 5 ára. Viljayfirlýsingin verður undirrituð á ráðstefnu um Jafnvægisvogina þann 31. október næstkomandi. Það er von okkar að fyrirtækið þitt  leggist á árarnar með okkur í þessu mikilvæga verkefni. Saman getum við betur.

Nánari upplýsingar veitir verkefnisstjóri Jafnvægisvogarinnar Eva Magnúsdóttir, eva@podium.is eða GSM 858 6301.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica